• Ynja Mist Aradóttir

Frá Hanoi til Hai Phong á mótorhjólum


05.09.16 - Mótorhjól og tattoo Þennan dag keypti ég mér mótorhjól. Ég var frekar heppin með það og ég þurfti ekki einu sinni að leita. Það kom bara strákur upp að okkur Sunnu sem var á sama hosteli og við, og spurði hvort við værum nokkuð að leita okkur að mótorhjóli. Ég sagði já og fór að skoða mótorhjólið. Við höfðum reyndar aldrei áður keyrt mótorhjól á ævinni, en það er annað mál.

Ég endaði á því að kaupa mótorhjólið á 100$ því strákurinn var að fara heim og vantaði að losna við það sem fyrst. Venjulega kosta sambærileg mótorhjól svona 200-250$ hérna þannig ég var mjög heppin. Eftir að ég festi kaup á fyrsta mótorhjólinu mínu þá labbaði ég með það til Nick, sem á verkstæði í sömu götu og hostelið okkar. Við fórum á einhverja götu þar sem var minni umferð en annarsstaðar, og ég náði þessu á svona 10 mín. Gírarnir virka nánast alveg eins og í bílum nema þú skiptir með fætinum, og kúplar með hendinni. Meðan á þessu stóð var Sunna á sama tíma að fá sér tattoo, svo hún þurfti að læra að keyra seinna. Þegar við hittumst aftur vorum við báðar yfir okkur ánægðar með daginn, Sunna komin með sjúklega flott tattoo og ég byrjuð að keyra mótorhjól.

Hinsvegar efaðist Sunna ennþá um það hversu góð hugmynd það væri að ferðast á mótorhjólum, vegna þess að margir höfðu sagt okkur hversu hættulegt það væri. En á sama tíma segja flestir sem hafa gert það sama að þetta sé það besta sem þú munt gera, og það sé ekki sama upplifunin að vera í rútu eða lest. Ég var alltaf ákveðin í að gera þetta þrátt fyrir það sem aðrir segja, og ég lofaði Sunnu að hún myndi skipta um skoðun um leið og hún prufaði að keyra. Og það var akkurat það sem gerðist! 06.09.16

Eins og sést þá fannst henni þetta mjög gaman strax. Hún lærði á semi-automatic hjól sem þýðir að það er engin kúpling til að hafa áhyggjur af, bara gírar. Við skoðuðum nokkur hjól handa Sunnu, en enduðum svo á því að kaupa bara hjólið sem hún lærði á. Ferðalag um nótt Samdægurs kl. u.þ.b 17:00 lögðum við af stað í fyrsta ferðalagið til Hai Phong. Ferðin átti að taka sirka 2 klst á mótorhjólum, en það var svo sannarlega ekki raunin hjá okkur. Þegar við vorum komnar svona 1/5 af leiðinni (á hraðbraut) komum við að vegatollum. Á sama tíma byrjaði að helli rigna þannig við stoppuðum og gerðum okkur betur tilbúnar fyrir rigninguna. Hún stoppaði sem betur fer eftir svona 10 mínútur en þrátt fyrir það vorum við rennandi blautar.

Við fórum svo að tollinum, en verðirnir þar spurðu hvert við værum að fara og bentu okkur á aðra leið. Mig langaði helst bara að halda áfram á hraðbrautinni því ég kunni enga aðra leið, en þeir voru fastir á því að við myndum fara hina leiðina frekar. Við gerðum það og keyrðum lengi vel þar til vegirnir byrjuðu að verða holóttari og lélegri. Þrátt fyrir það að hafa reynt að fylgja maps.me appinu þá vorum við orðnar nokkuð vissar um að þetta væri ekki rétt leið. Við héldum áfram með stoppum hér og þar til þess að kíkja á kortið, en enduðum samt sem áður á hræðilega holóttum drulluvegi sem var blautur eftir rigninguna. Það var gjörsamlega svart úti og við hossuðumst á þessum vegi heillengi en á einhvern ótrúlegan hátt náðum við að halda okkur uppréttum þar til við loksins komum að einhverjum litlum bæ. Þá kom kona sem benti mér á að annað dekkið mitt væri sprungið. Hún labbaði með okkur til næsta viðgerðarmanns, sem gerði við þetta á met tíma. Á meðan bauð konan okkur mat og spurði hvort við værum ekki þreyttar. Hún bauð okkur gistingu, en við ákváðum að halda samt áfram. Á meðan við borðuðum var bara öll fjölskyldan saman komin þarna við borðið með okkur, nokkur börn, 3 konur, og 2 karlar. Engin annar þarna kunni orð í ensku, og konan sem talaði við okkur skildi og talaði mjög takmarkað. Allir reyndu að tala við okkur á víetnömsku og við sátum þarna eins og hálfvitar. Við þökkuðum vel fyrir okkur og ég borgaði viðgerðarmanninum klink fyrir viðgerðina. Klukkan var örugglega orðin svona 11 um kvöld. Við ákváðum að reyna bara að komast upp á hraðbrautina aftur því þá gætum við verið komnar um miðnætti. Við komumst á hraðbrautina, keyrðum heillengi, en þegar ég byrjaði að sjá báta við hliðina á götunni þá vissi ég að við værum að verða komnar. Hamingjan tók við á ný og við vorum komnar rétt eftir miðnætti en þá áttum við eftir að finna einhvern stað til þess að sofa á. Við redduðum því með því að spurja fyrsta fólkið sem við sáum þegar við komum í miðbæinn. Ein stelpan bauðst til þess að keyra með okkur og sýna okkur ódýrt hótel - það er ótrúlegt hvað fólkið hérna er vinalegt og hjálpsamt. Við komumst heilar á húfi í sturtu og upp í rúm. 07.09.16 - Brjálaðir hundar og bátsferð Við vöknuðum frekar seint og byrjuðum á því að þrífa alla drulluna af dótinu okkar, m.a. skóna sem voru ógeðslegir. Maður reddar sér samt:

Við vorum ekki komnar út af hótelinu fyrr en eftir hádegi, en drifum okkur að kaupa miða í bát yfir til Cat Ba eyjunnar. Þegar við komum að miðasölunni þá virtist enginn vera þar. Við löbbuðum inn og vorum bara að líta í kring um okkur þegar 2 hundar tóku á móti okkur með látum. Þeir geltu og urruðu, við urðum skíthræddar. Ég man bara að í eitt sekúndubrot ætlaði ég að hlaupa, en svo stoppaði ég mig af og hugsaði "Ok nei, vera róleg, vera róleg". En akkurat á tímapunktinum þegar ég snéri mér við þá sé ég bara Sunnu koma að mér og hún hoppar upp á mig og tekur utan um mig með höndunum og fótunum þannig hún snerti ekki jörðina. Ég var ekki að búast við þessu, ég missi jafnvægið og Sunna dettur á gólfið. Þarna var ég eiginlega í meira sjokki yfir því að Sunna hafi í alvörunni hoppað upp á mig því hún var svo hrædd heldur en útaf brjáluðu hundunum. Eina sem kom út út mér var "WTF SUNNA". Sunna stökk um leið og upp á stól. Við stóðum þarna skíthræddar haldandi utanum hvora aðra að bíða eftir að hundarnir myndu ráðast á okkur þegar það kom fram kona sem vann þarna. Hún hefur pottþétt hugsað bara "Ohh þessir túristar kunna ekki neitt". Ennþá í vægu hjartaáfalli keyptum við okkur bátsmiða fyrir okkur og mótorhjólin á alltof háu verði (komumst að því eftir á). Svo var okkur sagt að báturinn væri að fara bráðum, og við ættum að elta einhvern mann sem myndi keyra alla leiðina með okkur. Þetta var ágætis spotti og við þutum áfram í svaka stressi og gaurinn var í símanum á meðan að segja þeim á bátnum að bíða eftir okkur. Við komum svo sveittar í bátinn þar sem allir biðu eftir okkur til að geta lagt af stað (svo það sé á hreinu þá vissum við ekki að hún hefði bókað okkur í bát sem var að leggja af stað innan örfárra mínútna). Það var gott að komast á bátinn að slaka á eftir allt þetta stress sem við vorum búnar að lenda í.

Þröngt mega sáttir sitja

Eyjan var falleg í fjarska og gömlu bátarnir og skipin fannst mér æðisleg.

Þegar við vorum komnar á eyjuni þurftum við að keyra að aðal bænum sem var svona klukkutíma keyrsla. Það var mjög gaman að keyra á þessari undurfögru eyju.

Buddha Belly Það var að orðið dimmt þegar við komum í bæinn. Það fyrsta sem við gerðum var að fá okkur að borða á stað sem heitir Buddha Belly og við sáum sko ekki eftir því! Fengum bestu núðlusúpuna hingað til og auk þess var þetta fyrsti 100% vegan veitingastaðurinn sem við höfum séð hérna og Sunna var ekki að hata það. Mælum með Mushroom noodle soup á Buddha Belly ef þú ert að fara til Cat Ba!

Hostelið Næst þurftum við að finna okkur hostel, og það gekk aldeilis greitt fyrir sig. Á næsta borði við okkur voru túristar sem við spurðum hvar þau væru að gista. Þau mældu með Central CatBa Hostel og sýndu okkur leiðina. Við fórum beinustu leið þangað og pöntuðum okkur 2 nætur í 28 manna dormi. Það var bara mjög fínt!

 

Ynja


126 views0 comments

Recent Posts

See All