• Ynja Mist Aradóttir

Cát Bà - Bátsferð og apabit


09.09.16 Við vöknuðum og hostelið bauð okkur upp á djúpsteiktar núðlur í morgunmat. Svona var útsýnið þegar við komum út, bjart en skýjað, fallegir háir klettar og gróður í kring um byggingarnar.

Svo beint fram af götunni var sjórinn, fullur af litlum eyjum og hólum. Bátarnir eru flestir mjög gamaldags, litríkir viðarbátar.

Við tókum smá göngutúr um bæinn í morgunsárið.

Ætla að skjóta því inn í að arkítektúrinn í Vietnam er mjög sérstakur. Flest öll húsin eru svona há og örmjó, jafnvel þó þau standi bara ein og sér. Yfirleitt er fjölskyldufyrirtæki neðst í bygginguni, og svo eru hinar hæðirnar bara heimilið. Þannig oft þegar maður verslar við fyrirtæki eða veitingastað þá er maður eiginlega bara heima hjá fólki og það aðstoðar þig bara með barn í annarri eins og ekkert sé. Manni líður stundum smá eins og maður sé að troða sér inn á heimili fólks, en svona er þetta bara hérna og þetta er bara venjulegt fyrir þeim.

Eftir göngutúrinn ákváðum við að taka smá rúnt um eyjuna á hjólunum, og fundum æðislega strönd í leiðinni.

Við skoðuðum umhverfið vandlega og tókum nokkrar myndir. Ég tók eftir því að af og til rak plastflöskum upp að ströndinni, og gat auðvitað ekki sleppt því að týna þær saman. Sunna byggði þennan fína sandkastala á meðan, en flöskurnar sem ég týndi urðu ansi margar. Synd að sjá svona rusl á þessari annars fullkomnu strönd, en svona er þetta nánst allsstaðar í heiminum. Margt smátt gerir eitt stórt :)

Svo rétt innan við ströndina fundum við þennan ævintýralega stað þar sem hægt var að leggjast niður í svona litlum kofa og slaka á.

Þegar við komum aftur í bæinn þá fórum við beint í tourist information til þess að bóka bátsferð fyrir morgundaginn. Við bókuðum dagsferð sem byrjar klukkan 08:00 og er búin um 17:00. Inní því var kajak ferð, sigling um Halong Bay, og heimsókn á Monkey Island. Restinni af deginum eyddum við í rólegheitum að skrifa og teikna, ásamt því að fara aftur á nýja uppáhalds staðinn okkar Buddha Belly.

09.10.16 - Bátsferð og apabit Næsta morgun vöknuðum við snemma og gerðum okkur til fyrir bátsferðina. Ég tók með mér sundföt, handklæði, myndavélarnar mínar, skrifbók og teiknibók. Þegar við komum á bátinn tókum við eftir því að það vorum bara útlendingar á okkar bát en á öðrum bátum voru stundum bara Vietnamskt fólk. Okkar bátur var semsagt líka merktur sem "tourist boat". Fyndið.

Við sigldum fram hjá fullt af "floating villages" sem var ótrúlega fallegt og litríkt. Skrýtið að hugsa til þess að þetta sé heimili fólks og að sumt þessa fólks þekki ekkert annað en að búa í fljótandi húsi og veiða sér fisk í matinn. Svo voru líka oft hundar sem þutu á milli flekanna geltandi þegar við fórum framhjá. Hérna er svo mynd af "Lone rock" sem birtist m.a. í Pirates of the Caribbean.

Ég var því miður ekki með myndavél í kajak ferðinni, en þá rákumst við líka á nokkrar flöskur og fórum eginlega bara í mission að finna sem flestar. Á leiðinni rérum líka í gegn um tvo litla hella, náttúran þarna er ótúleg.

Við stoppuðum hjá einni lítilli eyju og stukkum út í sjó og syntum að lítilli strönd á eyjunni. Næsta stopp var svo Monkey Island. Báturinn laggði upp að frekar stórri strönd og við löbbuðum upp að eyjunni þar sem voru tré og við sáum strax nokkra apa. Við stóðum við hliðina á veitingastað og skoðuðum apana. Þeir voru ótrúlega sætir og við vorum mjög nálægt þeim. Sunna var alvarlega að íhuga það að klappa apanum, en hún sleppti því sem betur fer því þegar hún náði augnsambandi við apann í 1 sek þá sýndi hann henni tennurnar mjög grimmilega.

Stuttu eftir þetta laumaðist einn apinn niður í sandinn, tók skóinn minn og hljóp með hann upp í tré. Þegar hann var kominn upp í grein eginlega fyrir ofan okkur þá missti hann skóinn og án þess að hugsa þá náði ég í skóinn og reyndi að labba hægt í burtu til þess að hræða þá ekki. Ég sá eftir því að hafa gert þetta þegar ég sá nokkra apa upp í tréinu að horfa á mig. Sunna sá svo að apinn var að elta mig, svo stökk hann upp á fótinn minn og þá kom annar api sem stökk upp á hendina mína. Apinn á hendinni horfði í sekúndubrot í augun á mér og svo horfði ég á hann bíta mig. Ég panikkaði, en apinn sem stal skónum lét mig í friði og þeir stukku báðir í burtu. Svona leit þetta út nokkrum mínútum eftir bitið.

Og svona leit þetta út eftir nokkra klukkutíma.

Þegar ég kom aftur á hostelið þá voru herbergisfélagar okkar að segja mér að ég þyrfti að fara í sprautu innan einhverra klukkustunda, og að þær væru rosalega dýrar og eitthvað svona. Allir sögðu mismunandi og sumir sögðu að ég þyrfti ekki einu sinni að fara í sprautur. Þetta gerði mig mjög ruglaða og stressaða þannig ég eyddi eiginlega bara restinni af deginum í það að googla og reyna að fræða mig um þetta. Ég fékk ekki miklar upplýsingar um það hvar ég gæti fengið sprauturnar, en flestir sögðu að ég þyrfti að fara alla leiðina baka til Hanoi. Ég var ekki að nenna þessu veseni en fann svo út að það var alveg hægt að fá þessar sprautur í Hai Phong, og að það þyrfti bara að vera innan 4 daga, því fyrr því betra. Þetta þýddi samt að við þurftum að fara af eyjunni fljótlega. 11.09.16 Þennan dag sváfum við óvenju lengi og þegar við vöknuðum settumst við út og Sunna fór að læra og ég teiknaði og skrifaði. Svo vorum við bara að labba, keyra og skoða ýmislegt. (Myndir af teikningum koma seinna skannaðar). Við enduðum á því að missa af því að fara af eyjunni þennan daginn, en það var allt í góðu, við ákváðum að fara bara frekar snemma næsta morgun. 12.09.16 Við löggðum snemma af stað í klukkutíma ferðalagið í gegn um Cat Ba eyjuna til þess að komast í ferjuna. Þetta var heitasti dagurinn hingað til. Það er ótrúlegt hvað maður upplifir umhverfið vel með því að ferðast á mótorhjólum. Maður stoppar þar sem maður vill þegar maður vill, og við erum alltaf að sjá staði sem við vissum ekki einu sinni af.

Ferjan kostaði mjög lítið, en við gerðum okkur einmitt þá grein fyrir því að það hafði verið svindlað vel á okkur á leiðinni til Cat Ba. Við borguðum margfallt meira þá. Það var æðislegt að sitja framan á bátnum slaka á, njóta útsýnisins og auðvitað teikna smá.

 

Ynja


59 views0 comments

Recent Posts

See All